top of page

Til eru nokkrar gerðir af taubleium og það er misjafnt hvað hentar hverju og einum. Hérna verður útskýrður munurinn á þeim.

Vasableiur – er líklega algengasta gerðin. Til að nota þær þarf maður að hafa tvennt: sjálfa bleiuna og innlegg.

Bleian sjálf er með PUL sem ytra lag og innra lag sem oftast er úr stay dry efnum, en geta líka verið úr náttúruefnum. Þessi tvö lög eru saumuð saman allan hringinn, nema það er skilin eftir rifa. Þannig að vasi myndast sem hægt er að setja innleggið inní og þaðan kemur heitið.

Innleggið er eins og stórt dömubindi, annað hvort úr microfiber (gerviefni) eða einhverju af náttúruefnunum (Í sumum tilvikum bæði).

Þannig að ef þú ert með barn sem pissar mikið og ert að nota vasableiu, þá er oftast microflís eða suedocloth næst húðinni. Í vasann er oft sett tvö innlegg; microfiber næst stay dry laginu, sem dregur hratt í sig og svo utar hampur eða bambus sem halda vökvanum vel.

AIO (All-In-One) – er önnur algeng gerð, en hún er líkust einnota bleiunum. Þá er búið að sauma saman sjálfa bleiuna og innleggið. Það er misjafnt hvernig það er gert. Stundum eru þrjár eða allar hliðar innleggsins saumaðar fastar við bleiuna, sem hefur þann ókost að þær eru lengi að þorna. Aðrar eru þannig að annar endinn á innlegginu í saumaður  fastur við bleiuna og eru þær fljótari að þorna. Oft er líka vasi á þeim, eins og á vasableium, svo hægt sé að bæta við auka innleggi. Þriðja útgáfan er þannig að innlegginu er smellt í bleiuna og því er hægt taka það af til að auðvelda þvotta og flýta fyrir þornun. Þetta er kallað Snap in one (SIO).

AI2 (All-In-Two) – byrjendur eru oft mjög hrifnir af þessari gerð, enda hentar hún oft mjög vel ungum börnum þegar skipta þarf ört um bleiu. Hér er oft ekkert innra byrði á bleiunni eins og á vasableium, heldur er innlegg fest við PULið og er þá oftast ekki talað um bleiu heldur skel. Það er mismunandi hvernig innleggið er fest við skelina, oft eru smellur á skelinni og innleggjunum eða flipar sem endanum á innleggjunum er smeygt undir. Helsti kosturinn við AI2 er að það þarf ekki alltaf að skipta um skel, heldur er bara sett nýtt innlegg í hana. Óhreina innleggið er þá sett í þvott en skelin notuð áfram. Sumum finnst gott að vera með tvær skeljar í gangi í einu og nota þær til skiptis á meðan hin er viðruð. Skeljarnar eru settar í þvott ef það fer kúkur í þær eða þær óhreinkast á annan hátt. Algengt er að miða við 3 innlegg á móti einni skel og því tekur hver „umgangur“ minna pláss, t.d. í skiptitöskunni, en aðrar bleiutegundir.

Fitted bleiur – henta vel nýburum og sem næturbleiur fyrir stærri börn. Fitted bleia er eins í laginu og vasableia/skel/cover en er ekki úr neinu vatnsheldu efni. Bleian er öll úr einu eða fleirum náttúrulega rakadrægum efnum (hamp, bambus eða lífrænni bómul) sem minnka líkurnar enn frekar á leka. Stundum er líka vasi svo hægt sé að bæta við auka innleggi. Gott fyrir börn sem pissa mikið. Heimavið er oft hægt að hafa þessar bleiur á án þess að vera með cover, en þá þarf bara að fylgjast með þegar þær verða rakar og skipta þá.

Hybrid Fitted – eru að mörgu leiti mjög líkar fitted bleium en þær eru með sérhannað flís falið inn á milli litríka efnisins að utan og mjúka efnisins að inna. Vökvi sem kemst í snertingu við flísið (að innanverðu) er beint aftur til baka í rakadræga efnið. Þetta veldur því að rakadræga efnið nær að draga betur í sig á stærra svæði í stað þess að verða gegnblautt og rennandi á einum stað og byrja að leka þannig að þurfi að skipta um bleyju. Til lengri tíma þarf að nota cover.

Gasbleiur – gömlu góðu gubbuklútarnir. Hver bleia er stór bómullardúkur (oft 70x70cm) sem hægt er að brjóta saman á ýmsa vegu. Þessi gerð hentar mjög vel á nýbura og er ódýrasta leiðin. Þetta er upprunalega gerðin af bleium og oft er hægt að nota gamlar og lífsreyndar gasbleiur sem til eru í fjölskyldunni.  Gasbleiur eru þó ansi misjafnar að gæðum og þá helst hvað varðar rakadrægni og mýkt. Sumar henta alls ekki sem bleiur en fínar sem gubbuklútar sem henta betur í ýmislegt annað sem snertir nýbura. Ef gasbleiurnar eru festar á barnið þá eru sjaldnast lengur notaðar öryggisnælur (enda lítið öryggi í því) heldur Snappi eða aðrar festingar. Þetta eru festingar úr plasti og fleiri efnum sem krækja þannig í efnið að bleian situr kyrr. Hér er listi yfir síður sem sýna mismunandi brot.

Prefolds – eru í svipuðum stíl og gasbleiurnar nema þær eru miklu minni (ca 30x40) og þykkari.  Þau eru gjarnan úr mörgun lögum af náttúrulegum efnum, oft þykkastar eftir endilangri miðjunni. Þær eru oftast brotnar í þrennt eftir endilöngu og festar þannig á barnið með sömu festingum og gasbleiurnar. 

Cover/skeljar – er notað yfir bleiur sem eru ekki með vatnshelt ytra lag svo sem fitted, gas, eða AI2 eða önnur innlegg sem mega vera upp við húð barnsins. Þetta er úr vatnsheldu efni sem andar eins og PUL, flís eða ull. Sé ullarcover notað þá þarf að meðhöndla það á sérstakan hátt til að gera það vatnshelt. Það kallast að lanolinesera ullina (setja fituna aftur í ullina) en það gerir hana vatnsfráhrindandi. Kosturinn við ullarbuxur er að þær halda mjög vel og eru aðallega notaðar yfir fitted bleiur og þá gjarnan á nóttunni. Þótt það hljómi eins og þær séu mjög heitar þá er staðreyndin sú að þær eru ekkert heitari en cover. Þær þarf ekki að þvo eftir hverja notkun nema það komi kúkur í þær eða farnar að lykta, oft er nóg að bara viðra þær á milli notkunar. 

W2W/hidden pul bleiur – W2W (wing to wing) eru tvískiptar bleiur. Þá er annað hvort tvö Pul efni saumuð saman til að fá flott útlit á bleiuna eða þá að það er annað efni saumað yfir pulefni á helming bleiunnar. Hidden pul þýðir að það er pulefni saumað undir efnið sem skapar útlit bleiunnar.

 

 

 

 

 

 

 

bottom of page