top of page

Kostnaður

Margir velja taubleiur út frá sparnaðarsjónarmiði. Startpakkinn er að vísu nokkuð dýrari en með bréfbleiur en á móti kemur að þegar startpakkinn er kominn þá þarf í raun ekki endilega að leggja út í meiri kostnað. Taubleiur hafa sér líka framhaldslíf þannig að þótt að eitt barn sé búið að nota bleiurnar þá er hægt að nota þær áfram á næsta barn eða selja þær áfram.

 

Jafnvel þó fólk leyfi sér að kaupa meira en það nauðsynlega þarf eru litlar líkur á að þú eyðir meira í tau en einnota bleiur.
Gengið hafa sögur um að það borgi sig ekki að nota taubleiur vegna þess hve dýrt sé að þvo þær. Þessar fullyrðingar standast illa þegar dæmið er hugsað til enda.

 

Bleiur eru misdýrar eftir framleiðendum og gerð. Virt og traust vörumerki selja bleiurnar sínar ekki ódýrt en bleiur sem eru frá lítið þekktum framleiðendum eða án allra vörumerkja eru töluvert ódýrari. Á markaðnum hér á landi eru vasableiur og AIO á verðbilinu 1500-6500 krónur. Ódýru bleiurnar eru oft kallaðar Kínableiur. Ef keyptar eru notaðar eða ódýrar bleiur má gera ráð fyrir að 20 stykki kosti um 30-40þúsund. Vandað og gott safn getur auðveldlega farið yfir 100þúsund, en að sama skapi er hægt að selja það á betra verði en ódýrari bleiur þegar bleiutímabilinu lýkur og líklegra að það dugi á fleiri börn en þær ódýrari. Ætla má að aðrir hlutir sem taldir eru nauðsynlegir hér að ofan kosti á bilinu 8-20þúsund.

 

Startkostnaðurinn við bréfbleiur er nokkuð minni en við taubleiur en á móti kemur að það er leyndari kostnaður sem fylgir bréfbleiunum. Kostnaðurinn við einn og einn bréfbleiupoka sem kemur með heim úr búðarferð er nokkuð falinn en þegar þetta er tekið saman yfir árið þá lítur þetta öðruvísi út. 

Gefum okkur að barn noti 6 bleiur á dag og að bréfbleian kosti 32kr stk (stærð 3 af pampers) þá eru þetta rúmar 70 þúsund á ári. En taka þarf inní ferðina í og úr búðinni, stærri bleiur eru dýrari og oft þarf að skipta mun örar en 6 bleiuskiptingar á dag, sérstaklega hjá yngstu börnum. Einnig má gefa sér að barn sé með bleiu til ca 3 ára aldurs sem gera þá 210þúsund í heildina.
 


 

bottom of page