top of page

Hérna verður farið yfir helstu vandamálin sem gætu komið upp varðandi taubleiurnar

Rauður bossi

Sum börn geta orðið rauð á bossanum og þá oftast bara tímabundið, hvort sem notast er við taubleiur eða bréfbleiur. 

Hérna koma nokkur ráð við rauðum bossa.

 

  • Suða: Þvo öll innlegg  á 70-90°C (misjafnt hvað vélar bjóða uppá) til að drepa sveppi eða bakteríur sem hugsanlega gætu sest að í bleiunum og valdið roðanum.

 

  • Sumir sjóða líka bleiurnar sjálfar en vert er að fara varlega í það og þá er það gert á eigin ábyrgð þar sem framleiðendur mæla ekki með því að þetta sé gert.

 

  • GSE=grape seed extract: ef grunur er um að roðinn sé vegna sveppasýkingar er gott að setja nokkra dropa af olíunni í mýkingarefnishólfið í þvottavélinni þegar taubleiur eru þvegnar. Þessi olía drepur spora sveppanna sem leynst gætu í bleiunum. Þessa olíu er hægt að fá í heilsubúðum.

 

  • Þvottur: skola allar bleiur extra vel því ef það eru leifar af þvottaefni í bleiunum þá getur það valdið roða.  Eins getur roðinn stafað af óþoli fyrir þessu þvottaefni (þótt barnið þoli þvottaefnið í venjulegan þvott). Ef roðinn er þrálátur getur verið gott að skipta alveg um þvottaefni. Ath einnig að sumar vélar taka inn á sig eins lítið vatn og þær komast upp með, ef hægt er að stilla á meiri vatnsinntöku þá er það kostur.

 

  • Þvottaklútar: Huga að því hvaða þvottaklúta verið er að nota, einnota þvottaklútar geta valdið roða á bossa. Best er að nota fjölnota klúta, klútar t.d úr bambus eru mjög mjúkir og góðir fyrir viðkvæma bossa.

 

  • Lavender: Gott getur verið að setja 1-3 dropa af lavender olíu í bossaklútsvatnið og strjúka yfir bossann með því, því lavender er sagt hafa róandi og græðandi áhrif. Ath að ekki á að setja hreina olíu beint á húðina, það þarf að blanda hana í vatn nema olían sé sérstaklega til þess gerð að fara beint á húð.

 

  • Lofta um bossann: hvort sem um er að ræða taubleiu bossa eða bréfbleiubossa þá er alltaf gott að lofta reglulega vel um bossann.

 

  • Kartöflumjöl og krem geta hjálpa til við að vinna á roða á bossa. Alltaf skal samt passa að hafa þunnt lag af kremi og passa að kartöflumjöl (eða annað púður) liggi ekki í kekkjum á húðinni – dreifa vel úr því. Ath að stundum þola börn ekki öll bossakrem og það getur aukið á roðann eða startað honum.

 

  • Ef bossinn er mjög rauður og viðkvæmur getur verið gott að þvo hann með mjúkum klút með smá kókosolíu í.

Þekkt er að sum börn þola ekki að hafa ákveðin efni eða tegundir af innra birði bleiunnar upp við húðina, þá þarf bara að prófa sig áfram með aðrar tegundir.

 

Lykt 

Lykt er kannski einn helst ókostur við taubleiurnar en það eru ekki allir sem lenda í þessu en oft er þetta bara merki um að þá þurfa bleiurnar smá ást og umhyggju.

  • Suða: gott er að setja innlegg alltaf annað slagið á suðu – þau eiga alveg að þola það, það er aðallega PUL efnið sem getur verið viðkvæmt fyrir því eða smellurnar. Ef vélin býður upp á 70°C þvott þá getur verið nóg að nota það annað slagið.

 

  • Skola extra vel: Þvottavélar eru mismunandi og þær nota mis mikið vatn í þvottinn. Því er gott að setja bleiurnar alltaf annað slagið á auka skol eða hella vatni inn á vélina þegar hún er að skola.

 

  • Þvottaefni: gott er að svissa alltaf reglulega á milli tveggja þvottaefna, ekki er vitað af hverju en þetta hefur reynst mörgum vel. Eins getur þurft að nota meira þvottaefni í einn þvott en þá þarf að passa að setja á gott skol á eftir.

 

  • Edik: Nær út lykt og mýkir bleiurnar, setja ca 1 msk í mýkingarefnishólfið. Þá er talað um að nota borðedik en 15% edik þarf að þynna. Ekki eru samt allir framleiðendur sem mæla með því að nota edik í bleiur.

 

  • Matarsódi: Hreinsar burtu þvottaefnisleifar úr bleiunum sem geta orsakað lykt, óþarfi að nota hann að staðaldri. Þó þarf að fara varlega í notkun hans á bambusefni þar sem hann getur skemmt trefjarnar sé hann notaður í miklu magni/oft. - skola vel á eftir.

 

  • Ef til vill stafar lyktin af óhreinindum í þvottavélinni sjálfri, því getur þurft að taka allsherjar þrif á þvottavélinni, hreinsa gúmmíhring, þvottaefnishólfið. Sumir láta jafnvel þvottavélina ganga einn hring með Ródaloni.

 

Ath reynsla taubleiuforeldra er sú að tanntaka veldur oft sterkari lykt af þvaginu og getur það verið orsökin fyrir tímabundnu lyktarveseni. Einnig er vert að fylgjast með vökvainntöku hjá barninu því ef það drekkur lítið þá verður meiri þéttni í þvaginu sem orsakar meiri lykt.

 

Stílar

Margir veigra sér við því að nota taubleiur ef barnið þarf stíla vegna fitunnar sem getur komið í bleiurnar frá stílnum. En það þarf ekki að vera vandamál. Hægt er að setja flísrenning á milli barns og bleiu og hann strípaður eftir notkun eða hríspappír og honum síðan hent, en þó er misjafnt eftir börnum hvað hvað smitast mikið í gegn.

 

En eitt gott ráð er að láta ískalt vatn renna á rassasvæðið á bleiunni og þá harðnar fitan ef einhver er og þá sér maður hvar  og hvort maður þarf að meðhöndla bleiuna eitthvað frekar.

 

 

Leki

Alltaf getur komið fyrir að bleiur leki, hvort sem það eru bréfbleiur eða taubleiur. Einhverra hluta vegna þá fyrirgefst bréfbleium það frekar að leka en taubleium.

 

Ef taubleiur leka þarf að komast að því hver ástæðan er svo hægt sé að stoppa lekann.

 

Vatnsheldni

  • Hefur eitthvað borist í bleiurnar sem gerir hana vatnsheldna t.d feitt krem, stílar eða mýkingarefni. Þá þarf að strípa bleiuna (sjá lið undir meðhöndlun)

 

Hvernig passar bleian barninu:

  • Getur verið að bleian sé of stóri á barnið? Hvernig fellur bleian að barninu, sést einhvers staðar að hún gapi? Ef barnið er mjög smátt með mjó læri er líklegt að þetta sé ástæðan. Ef þetta er one size bleia, prófaðu að minnka hana um eina stærð. Ef hún er í minnstu stillingu getur verið að bleian sé ennþá of stór.

  • Getur verið að bleian sé of lítil á barnið? Ef bleian er of þétt pressast vætan uppúr bleiunni. Athugaðu hvar bleian lekur og hvort að hún sé of þröng.

  • Getur verið að barnið sé í of þröngum fötum yfir? Þá gerist það sama og ef bleian er of lítil.

 

Innleggið

  • Hvernig var innleggið, er það rennandi blautt? Ef svo er þá er ástæðan líklega sú að rakadrægnin er ekki nóg. Prófaðu að nota rakadrægari innlegg, annað hvort stærri eða bættu við litlu aukainnleggi.

  • Hvernig var innleggið sett í? Var það krumpað, brotið upp á það skakkt eða ekki nógu vel sett í vasann? (það má ekki standa uppúr).

 

Strákar 

  • Verður hann blautur á hliðunum þegar hann liggur á bakinu? Ef þú ert með vasableiu eða AI2, getur verið að innleggið sé ekki ekki nógu framarlega til að taka við bununni.

  • Passa upp á typpið að það snúi niður.

 

Ef engin skýring finnst á af hverju bleian lekur getur verið að þessi tegund/snið bleia henti ekki barninu þínu. T.d. henta hliðarsmelltar bleiur yfirleitt betur grönnum börnum en þéttum.

 

bottom of page