top of page

Fróðleikur til daggæsluaðila

Mikil vakning hefur orðið varðand taubleiunotkun og því má búast við því að taubleiur verði meira sýnilegar hjá daggæsluaðilum. Við viljum endilega hvetja ykkur til að kynna ykkur bleiurnar áður en þið myndið ykkur skoðun á þeim. Margir sjá fyrir sér gamla systemið en taubleiur eru orðnar mun nýtískulegri og þægilegri í meðhöndlun. Í raun eru þær ekkert svo ólíkar einnota bréfbleium.

 

Við hvetjum Grænfána leikskóla eindregið til að kynna sér þær vel og jafnvel hvetja til notkunar á þeim. Bleiurusl er um 80% hluti almenns sorps á leikskólum og því væri hægt að spara með því að hvetja til taubleiunotkunar.

 

Þegar barn með taubleiu hefur vist hjá dagforeldri /í leikskóla, er eðlilegt að foreldrar setji fram sínar óskir, en það er líka eðlilegt að daggæsluaðili geri ákveðnar kröfur til forelda. Þessar kröfur eiga að miðast við það að sem minnst aukavinna skapist í kringum tauið og hægt er. Eðlilegt er að ætlast til:

  • Að foreldri leggi sig fram við að hafa bleiurnar sem einfaldastar og aðgengilegastar.

  • Að foreldrar sjái til þess að alltaf sé nóg af bleium.

  • Að innlegg séu komin á sinn stað þannig að engan undirbúning þurfi fyrir að setja bleiuna á barnið.

  • Að hrís-eða bambuspappír sé settur í hverja bleiu til að auðvelda frágang á kúkableium.

  • Að barninu fylgi PUL-poki til þess að setja óhreinar bleiur í. Hann þarf að vera nógu og stór til að taka 4 bleiur og vera með góðum rennilás. Æskilegt er að þessir pokar séu með hanka svo hægt sé að hengja hann upp.

  • Að foreldri skaffi taubleiuvænt bossakrem þurfi barnið að nota þessháttar.

  • Að foreldri sjái um að skola bleiur og meðhöndla bletti heima fyrir.

 

Bleian tekin af:

  • Ef að barnið er bara búið að pissa, er bleian bara tekin af, lögð saman með pappírnum inní og sett í PUL-pokann sem er í hólfinu.

  • Ef það er búið að kúka er sturtað úr bleiunni í klósettið, pappírinn í henni má fara í klósett. Síðan er bleiunni lokað og hún sett í PUL-pokann. Það er allt í lagi þó það sé eitthvað eftir í bleiunni, það verður hreinsað heima.

  • Best er að finna hvort einhver bleyta er komin í bleiuna með því að þreifa á pappírnum.

 

Bleian sett á:

  • Sett á eins og bréfbleia, en þarf að athuga að ekkert fóður (innlegg eða innrabirði bleiunnar) eða pappír standi útundan.

  • Reyna að láta bleiuna ná vel uppí mittið, svo bleian sé þétt í náranum.

  • Gott er ef foreldar smella bleiunum heima í þeirri stillingu sem hún á að vera í, því þarf að skoða þá stillingu áður en bleian er afsmellt, en svo lærist þetta fljótt. Bleiur með riflás eru festar líkt og venjulegar bréfbleiur.

 

Athugið:

  • Aðeins sérstakar sápur eða krem má nota með taubleium. Foreldrar koma þá með taubleiuvæn krem sem nota skal á barnið sé þörf á því.

  • Hver bleia á að duga í 3 klst, en mesta hættan er á að fyrsta bleia dagsins leki því þá pissar barnið mest.

  • ALLS EKKI henda neinni taubleiu í ruslið, sama hversu “útkúkuð” hún er, hún verður skrúbbuð heima.

  • Óþarfi að setja kúkableiur í sér plastpoka og svo ofan í pulpoka-spörum plastið, bara beint í Pul pokann!

  • Ekki er ætlast til þess að bleiur séu þvegnar, skolaðar eða hreinsaðar á annan hátt - bara beint í pul pokann með þær!

  • Ef riflás, ekki "krækja" honum í bleiuna sjálfa, annað hvort að setja á riflásinn framan á bleiunni eða á þvottaflipann.

  • Það tekur smá tíma að komast uppá lag með þetta, þetta venst.

  • Endilega passið að rugla ekki saman bleium eða týna þeim.

  • Best er ef foreldrar merkja bleiurnar sínar á einhvern hátt ef fleiri en eitt taubleiubarn er á sama vistunarstað..

 

bottom of page